Saga fyrirtækisins í 45 ár:   1975 – 2020   -  Stofnun Bílaleigu Húsavíkur hf. 

  

Bílaleiga Húsavíkur hf. var stofnuð 20. nóvember 1975 af fernum hjónum:  Árna Birni Þorvaldssyni, bifvélavirkjameistara á Húsavík og konu hans Jónu Guðlaugsdóttur en þau ráku lítið bifreiðaverkstæði í bílskúrnum á heimili þeirra, Höfðabrekku 2 á Húsavík.
Einari Olgeirssyni, hótelstjóra á Hótel Húsavík og eiginkonu hans Emelíu Sigurjónsdóttur.
Arnþóri Björnssyni, hótelstjóra  Hótels Reynihlíðar í Mývatnssveit og eiginkonu hans Helgu Valborgu Pétursdóttur sem voru hlutaeigendur hótelsins. 

Grími Leifssyni, rafvirkjameistara hjá Grími og Árna á Húsavík og eiginkonu hans Önnu Jeppesen og eigendur í því fyrirtæki.

Hugmyndin að stofnun fyrirtækisins var að í júní 1975 var ákveðið að kanna möguleika á því að byggja jarðvarmavirkjun í  Kröflu í Mývatnssveit og sáu þessir aðilar tækifæri  vegna þess verkefnis og í ferðaþjónustu. Má því segja að hugmyndin hafi orðið til og mótast hjá mjög þverfaglegum aðilum. Fyrirtækið byrjaði með útleigu á einum bíl af gerðinni Volks Wagen bjöllu sem var leigður frá Hótel Húsavík. Vegna aukinna umsvifa í héraði og aukins ferðamannastraums um Húsavíkurflugvöll í Aðaldal, bættust fljótlega við fjórhjóladrifnir bílar og sá Árni Björn um allt viðhald á bílunum en útleigan sjálf á hótelunum tveimur, á Húsavík og í Mývatnssveit.

Eftirfarandi er úr fundargerð stofnfundarins og eru upphæðir stofnfjár í gömlum íslenskum krónum og til glöggvunar á peningaupphæðum er vert að geta þess að árið 1977 kostaði Blaiser jeppi árg. 1973 kr: 2,2 milljónir.

 

Fimmtudaginn 20. nóvember 1975

Stofnfundur Bílaleigu Húsavíkur h/f haldinn á Hótel Húsavík (Hliðskjálf).

Á fundinn mættu: Einar Olgeirsson, Emelía Sigurjónsdóttir, Grímur Leifsson, Anna Jeppesen, Árni Björn Þorvaldsson, Jóna Guðlaugsdóttir, Arnþór Björnsson og Helga V. Pétursdóttir. Fundarstjóri var kjörinn Einar Olgeirsson og tilnefndi hann Arnþór Björnsson til að rita fundargerð.

  1. mál: Samþykkt var að stofna hlutafélag til reksturs bílaleigu og hliðstæðrar starfsemi. Hlutafélagið skal heita Bílaleiga Húsavíkur (enda hafi bæjarráð Húsavíkur ekkert við nafngiftina að athuga). Varnarþing og heimili skal vera á Húsavík.
  2. mál: Var síðan undirritaður stofnsamningur.
  3. mál: Lesið var upphaf að samþykktum félagsins og voru þær samþykktar.
  4. mál: Kosning 3ja manna í stjórn og 1 til vala. Kosningu hlutu Einar Olgeirsson, Árni B. Þorvaldsson og Grímur Leifsson, til vara Arnþór Björnsson.
  5. mál: Kosnir voru 2 endurskoðendur, kosningu hlutu Anna Jeppesen og Helga V. Pétursdóttir.

 

Innborgað hlutafél við undirskrift þessarar fundargerðar:

Einar Olgeirsson                  kr. 110.000,-
Emelía Sigurjónsdóttir         kr. 110.000,-
Árni Björn Þorvaldsson        kr. 100.000,-
Jóna Guðlaugsdóttir             kr. 100.000,-
Grímur Leifsson                    kr. 100.000,-
Anna Jeppesen                    kr. 100.000,-
Arnþór Björnsson                  kr. 100.000,-
Helga V. Pétursdóttir             kr. 100.000,-
Andri Hrólfsson                     kr.        0,-

                                     Samtals:          kr. 820.000,-

 

Ákveðið var að kaupa bifreiðina Þ-2620 VW 1200, árgerð 1974.

Fundargerð lesin upp, fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.

 

Árið eftir eða í árslok 1976 er bílaeign fyrirtækisins orðnir fjórir bílar:

            Þ-2620          VolksWagen              árgerð 1974
            Þ-1220          Blaiser                       árgerð 1974
            Þ-2707          VolksWagen              árgerð 1971
            Þ-2931          VolksWagen              árgerð 1975

 

Umsvifin urðu sífellt meiri og ekki síst í bílaviðgerðum og árið 1977 bættust tveir bílar til viðbótar:

            Þ-1219          Blaiser                       árgerð 1973
            Þ-2616          Land Rover               árgerð 1973

 

Nýir tímar og framtíðarhúsnæði 

Árið 1979 tók Bílaleiga Húsavíkur á leigu núverandi húsnæði að Garðarsbraut 66 á Húsavík af trésmíðaverkstæðinu Ás hf. Ákveðið var að auka mannahald, þar sem vöxtur í bifreiðaviðgerðum og útleigu var stöðugur. Einnig var opnaður Nesti-söluskáli með bílalúgu sama ár og fyrirtækið flutti á Garðarsbrautina og veitti Ásrún, dóttir Árna Björns og Jónu, söluskálanum forstöðu til ársins 1987 . Bílaleiga Húsavíkur h/f hóf formlega rekstur í því húsnæði þann 7. júlí 1979 og aukin umsvif með tilkomu „Nestis“ og olíu og bensínssölu Olís en Bílaleigan sá um þann rekstur um árabil. Árni Björn var ráðinn framkvæmdastjóri og  sinnti því starfi allt til dauðadags 16. janúar 1986.

Þann 25. janúar 1987 kaupir Bílaleigan öll hlutabréfin í trésmíðaverkstæðinu Ás hf. og þar með húsnæðið á Garðarsbraut 66 en Kaupfélag Þingeyinga var með forkaupsrétt á húsinu og hugðist nýta sér hann.  Í apríl 1994 er húsnæðið nr. 68 keypt af Tröð prenthúsi sem er næsta bil við Garðarsbraut 66.

Bókari fyrirtækisins var ráðinn Jóhann Kr. Jónsson og sinnti hann því verki til ársins 1994 er hann lést. Var Jóhann fyrirtækinu mikil stoð og stytta í öllum breytingum og á allan hátt í vexti þess. Stjórnin réði löggiltan endurskoðanda, Björn St. Haraldsson hjá N. Mancher árið 1981 en Anna Jeppesen og Helga Valborg Pétursdóttir höfðu sinnt því verki fram að þeim tíma. Er oft hægt að lesa út mikinn kraft og áræðni hjá þessum frumkvöðlum við það sem þau eru að byggja upp þó ekki hafi verkið gengið alveg þrautalaust fyrir sig og þá aðallega vegna ytri aðstæðna þ.e. óstöðugs efnahagsástands á Íslandi. En gleðin og nauðsynlegur húmor, var heldur ekki langt undan.

 

Í aðalfundargerð þann 30. október 1982 fyrir árið 1981 er eftirfarandi ritað: 

Eftir dýrlega matarveislu setti framkvæmdastjóri fundinn og las upp skýrslu frá endurskoðendum. Botnuðu menn misjafnlega mikið í lestrinum. Grímur var þó sýnu greindastur á svipinn, en er komið var að niðurstöðum reikninga fyrirtækisins lifnaði yfir mönnum, hér var eitthvað sem allir skildu. …. Eftir allan lesturinn bar einn hluthafinn fram spurningu „Og hvernig er svo staðan?“

Árið 1980 fluttu þau Einar Olgeirsson og Emelía Sigurjónsdóttir til Reykjavíkur þegar Einar tók við rekstri Hótels Esju. Árni Björn og Jóna keyptu hlut þeirra í fyrirtækinu. Arnþór tók þá við stjórnarformennsku af Einari og hélt hann um þá tauma til ársins 2012, en þau hjónin létust bæði það ár.

 

Nýir starfsmenn - fleiri áherslur 

Bílaleigan gerðist umboðsaðili fyrir Bifreiðar & landbúnaðarvélar hf. árið 1980 og sölu- og þjónustuaðili fyrir Toyota á Íslandi – P. Samúelsson hf. um miðjan níunda áratuginn.

Ráðnir voru bifvélavirkjar og eru sumir þeirra enn við störf hjá fyrirtækinu. Jónas Kristjánsson og Jón H. Sigurðsson voru þeir fyrstu sem komu inn við hlið Árna Björns árið 1979 og veitti Jón Helgi bifreiðaverkstæðinu forstöðu um árabil, eða frá árinu 1986 og þar til Jón Friðrik Einarsson tók við af honum árið 2001.

 

Þorvaldur Þór Árnason, bifvélavirkjameistari, hóf störf hjá fyrirækinu árið 1980 og annaðist verkstjórn á verkstæðinu við hlið föður síns og tók við framkvæmdastjórn fyrirtækisins af föður sínum eftir hans dag. Þorvaldur Þór og Jón Helgi, keyptu hver um sig 10% hlut í fyrirtækinu árið 1982. Árið 1985 keypti Þorvaldur Þór hluti Gríms Leifssonar og Önnu Jeppesen þegar þau fluttu til Reykjavíkur.

Guðlaugur G. Árnason hefur annast rekstur varahlutalagers frá árinu 1987 til dagsins í dag, að undanskildum árunum 1999-2002 í fjarveru bróður hans og gegndi þá framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins. Jónas Kristjánsson annaðist þá varahlutalagerinn.

Ásrún Árnadóttir var ráðin sem verslunarstjóri í söluskálanum – Nesti í bílinn, sem hún sinnti til ársins 1987 ásamt skrifstofustjórn en þá tók við eiginkona Þorvaldar Þórs, Soffía Helgadóttir og sinnti til ársins 1999 og tók við bókarastarfi til viðbótar árið 1994 þegar Jóhann Kr. Jónsson varð bráðkvaddur sem og launavinnslu sem Jóna, eiginkona Árna Björns, hafði annast frá upphafi ásamt ræstingu. Sjoppureksturinn gekk mjög vel allt til aldamóta en varð erfiður upp úr því vegna samkeppni í lágu vöruverði hjá stóru olíufélögunum. Söluskálanum var endanlega lokað haustið 2004 eftir að hafa reynt að vera með einungis sumaropnun í tvö sumur.

 

 Fjölskyldufyrirtækið 

Frá árinu 1985 hefur Bílaleiga Húsavíkur ehf. verið í meirihlutaeigu fjölskyldu Árna Björns heitins og Jónu. Í desember 2012 átti Jón Helgi Sigurðsson 2,5% hlut og dánarbú Arnþórs Björnssonar og Helgu Valborgar Pétursdóttur átti 5% hlut og keypti Bílaleigan hlutina af dætrum þeirra í árslok 2012, og af Jóni H. Sigurðssyni í árslok 2014. Þar með varð Jóna Guðlaugsdóttir, ekkja Árna Björns Þorvaldssonar, ein eftir af stofnaðilum sem skráður hlutaeigandi í Bílaleigu Húsavíkur ehf. og fyrirtækið er því komið í 100% eigu fjölskyldu Árna Björns heitins og Jónu í árslok 2014. Í september 2015 varð fyrirtækið í fullri eigu fjögurra barna Árna Björns og Jónu, og maka þeirra og vorið 2019 er það komið í eigu systkinanna Þorvaldar, Guðlaugs, Ásrúnar og maka.

 

Framkvæmdastjórar í 40 ár:

            Árni Björn Þorvaldsson      1979-1986
            Þorvaldur Þór Árnason      1986-1999
            Guðlaugur G. Árnason      1999-2002
            Þorvaldur Þór Árnason      2002- til dagsins í dag

 

Stjórnarformennska, aðalmenn og varamenn í 45 ár:

            Einar Olgeirsson                 1975 -1980  formaður
            Arnþór Björnsson                1980 -2012  formaður
            Guðlaugur G. Árnason         2013 - formaður til dagsins í dag
            Árni Björn Þorvaldsson        1975 -1985  aðalmaður
            Jóna Guðlaugsdóttir             1986 -1988  aðalmaður
            Grímur Leifsson                   1975 -1985  aðalmaður
            Þorvaldur Þór Árnason        1985 – aðalmaður til dagsins í dag
            Jón Helgi Sigurðsson          1984 - 2012 aðalmaður
            Ásrún Árnadóttir                  2013 – aðalmaður til dagsins í dag
            Arnþór Björnsson                1975 - 1980 varamaður
            Helga V. Pétursdóttir           1980 - 2012 varamaður
            Hilda Rós Pálsdóttir            2013 – varamaður til dagsins í dag

 Verkstæðisformenn:

Árni Björn Þorvaldsson    1979 -1 984
Þorvaldur Þór Árnason    1980 - 1986
Jón Helgi Sigurðsson       1986 - 2001
Jón Friðrik Einarsson       2001 - 2016
Þorvaldur Þór Árnaon      2016 - 2019
Bjarni Þór Gunnarsson     2020 –

 

 Skrifstofustjórn og fjármál:

Jóna Guðlaugsdóttir         1979 –1987
Ásrún Árnadóttir                1979 –1987
Soffía Helgadóttir               1987 –1999
Ásrún Árnadóttir                1999 – til dagsins í dag
Soffía Helgadóttir              2002 – til dagsins í dag,  fjármál og afleysingar

  

Starfsmenn í dag:

Í janúar 2020 eru 13 stöðugildi hjá fyrirtækinu. 

Ásrún Árnadóttir                              1979  Skrifstofustjórn
Jónas Kristjánsson                         1979  Bifvélavirkjameistari        
Þorvaldur Þór Árnason                    1980  Bifvélavirkjameistari
Guðlaugur G. Árnason                     1983  Bifvélavirki
Soffía Helgadóttir                             1987  Fjármál og afleysingar
Þorgrímur Ólafsson                         1998  Bílamálari
Gunnólfur Sveinsson                       2003  Bifvélavirki
Kristján Eysteinsson                        2004  Bifvélavirkjameistari
Bjarni Þór Gunnarsson                    2010  Bifvélavirki
Guðmundur H. Jóhannesson           2011  Aðstoðarmaður í bifvélavirkjun
Tístran Blær Karlsson                      2017 Nemi bifvélavirkjun
Tomasz Piotr Dulik                          2017 Aðstoðarmaður bifvélavirkjun
Kristján Gunnólfsson                       2019 Smur og aðstoðarmaður

 

Fjölmargir aðrir starfsmenn hafa unnið hjá Bílaleigu Húsavíkur í gegnum árin, bæði á verkstæði, bílaleigu, skrifstofuhaldi og söluskála. Bifvélavirkjanemar hafa klárað nám sitt hjá meisturum fyrirtækisins og eru eftirsóttir starfskraftar ef þeir hugsa sér til hreyfings.  Fyrirtækið hefur átt, og á góðan og tryggan viðskiptamannahóp sem starfmenn kappkosta að þjónusta vel. Stefna fyrirtækisins er að leitast við að starfsmenn fái þá sí- og endurmenntun til að halda í við nútímann í hraðri tækniþróun á varahlutalager eða utanumhald á skrifstofu og bókhaldi, sem og bílgreina sem í dag er í raun orðin hátækniþekking.

 

Því má segja að miklar breytingar hafi átt sér stað sem starfsmenn fyrirtækisins hafa upplifað og þurft að laga sig að, þessa fjóra áratugi sem Bílaleiga Húsavíkur hefur starfað.

bh 2020 150x126 v2

car renta bh is

garage bh is

Toyota Logo 128

hyundai

Land Rover

subaru logo

bmw 1

nissan

S SUZUKI vertical1 small